Í Hjarðarholtskirkju eru tvær klukkur sem er handhringt. Ekki er vitað um uppruna þeirra en þó er vitað að klukkurnar eru eldri en kirkjan sjálf sem var byggð árið 1904. Á minni klukkuna, sem virðist talsvert eldri en sú stærri, er letrað BIADNE BIADNESSEN A ATNERBAILE 1720.

Talið er að hér sé átt við Bjarna Bjarnason frá Arnarbæli. Bjarni fæddist um 1644 og lést 1723. Hann nam við Skálholtsskóla í tvö ár og var síðan í útlöndum um skeið. Árið 1688 gerðist hann bóndi í Arnarbæli en fyrir þann tíma bjó hann á Hesti í Önundarfirði. Bjarni bjó á Arnarbæli til æviloka. Hann var lögsagnari í Dalasýslu 1696-1697 og lögréttumaður. Honum var lýst sem auðugum, skýrum og margfróðum auk þess sem hann talaði nokkur tungumál. Bjarni kvæntist Guðnýju Hákonardóttur frá Miðgörðum í Staðarsveit. Þau eignuðust átta börn en auk þeirra átti Bjarni einn launson.

(Heimild: Dalamenn II. bindi, æviskrár 1703-1961. Höfundur Jón Guðnason, gfin út í Reykjavík árið 1961)

Hringing við messur

Fyrir messu er báðum klukkum hringt sex sinnum. Á stórhátíðum er hringt 9 sinnum. Eftir messu er hringt þrisvar sinnum.

Hringt er við upphaf messu. Ekki er venja að hringja 30 mínútum og 15 mínútum fyrir messu. Ástæðan er sú að Hjarðarholtskirkja er staðsett langt frá byggð og hljómur klukknanna berst ekki langt.

Hringing við útför

Þegar kista er borin til kirkju er minni klukkunni hringt nokkur slög á meðan verið er að bera kistuna inn og koma henni fyrir. Ekki er hringt við upphaf útfarar. Eftir útför er stærri klukkunni hringt einu slagi með nokkurra sekúndna millibili á meðan kista er borin út og þar til hún er komin upp fyrir húshorn.

 

Upptaka: Guðmundur Karl Einarsson, 1. mars 2014.
Hringari: Víví Kristóberts (hringjari í Hjarðarholskirkju síðan 1974)
Sérstakar þakkir: Jón Benediktsson og sr. Anna Eiríksdóttir