Bygging Borgarneskirkju hófst árið 1953 og var kirkjan vígð þann 7. maí 1959. Í desember það sama ár voru tvær kirkjuklukkur settar upp í turni kirkjunnar. Klukkurnar voru steyptar í Vestur-Þýskalandi af Engelbert Gebhard og sá Ásgeir Long um innflutning og uppsetningu klukknanna. Í frétt Morgunblaðsins þann 3. janúar 1960 er greint frá því að tæpt hafi staðið á því að ná uppsetningu fyrir jól og raunar hafi Ásgeir staðið í að stilla klukkurnar um miðnætti þann 19. desember. Þá hafi klukkurnar verið fluttar með Dettifossi til landsins og Eimskipafélag Íslands hagað því svo að þær væru það fyrsta sem kom á land úr skipinu svo unnt væri að aka þeim beint í Borgarnes. Hringingartæki voru frá Philipp Hörz.

Árið 1999 var Ásgeir Long aftur mættur í Borgarnes. Þá voru hringingartæki öll endurnýjuð og sett upp Apollo II stjórntölva frá Clock-o-matic í Belgíu. Burðarvirki klukknanna var breytt og sett var upp þriðja klukkan. Sú var steypt hjá Royal Eijsbouts í Hollandi.

Klukkunum er stjórnað af Apollo II tölvunni sem sett var upp árið 1999. Á öllum klukkum eru hamrar og því hægt að spila á klukkurnar auk þess að láta þær sveiflast.

  • Stærsta klukkan.
    Þyngd: 580 kg, Ummál að neðan: 102 cm, tónn: einstrikað g. 1959
    Áletrun: Borgarneskirkja 1959, gefin af Kaupfélagi Borgfirðinga. Einnig er mynd af kaleik og patínu. ENGELBERT GEBHARD KEMPTEN GERMANY
  • Mið klukkan.
    Þyngd: 330 kg, Ummál að neðan: 85 cm, tónn: einstrikað b. 1959
    Áletrun: Borgarneskirkja 1959, gefin af Kaupfélagi Borgfirðinga. Einnig er mynd af krossi. ENGELBERT GEBHARD KEMPTEN GERMANY
  • Minnsta klukkan.
    Þyngd: 205 kg, Ummál að neðan: 69 cm, tónn: tvístrikað d. 1999
    Áletrun: EIJSBOUTS ASTENSIS ME FECIT ANNO MCMXCIX*. CHALICE**. BORGARNESKIRKJA 1999

* Eijsbouts í Asten gerði mig árið 1999.
** Kaleikur

Notkun

  • 30 mín fyrir messu: Öllum klukkum hringt
  • 15 mín fyrir messu: Öllum klukkum hringt
  • Upphaf messu: Tveimur minni klukkunum hringt
  • Lok messu: Tveimur minni klukkunum hringt
  • Kista borin til kirkju: 3 x 3 slög
  • Upphaf útfarar: Líkhringing
  • Lok útfarar: Líkhringing
  • Áramót: Öllum klukkum hringt

Upptökur

Myndband

Myndir

Heimildir

Kirkjuvörður: Þorsteinn Eyþórsson, formaður sóknarnefndar
Sóknarprestur: Sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, prófastur
Upptaka og ljósmyndir: Guðmundur Karl Einarsson
17. júní 2019