Stykkishólmskirkja var vígð þann 6. maí 1990. Það var svo á aðfangadag jóla 1994 sem kirkjuklukkurnar fjórar voru vígðar. Klkkurnar eru steyptar í Hollandi hjá Royal Eijsbouts en hringibúnaður og tölva eru frá John Taylor Bellfounders Ltd. í Bretlandi. Ásgeir Long sá um innflutning og uppsetningu klukknanna en vélaverkstæði Jóhanns Ólafssonar í Hafnarfirði smíðaði burðarvirkið. Klukkunum er komið fyrir í lóðréttri röð. Efsta klukkan sveiflast ekki heldur er þar einungis hamar. Hinar þrjár klukkurnar sveiflast allar og á þeim er einnig hamar. Tónasamsetning klukknanna er þannig að þær geta spilað Westminster stefið líkt og Big ben klukkan í London.

Þyngd klukknanna og tónn er þannig:

  • 141 kg, e“
  • 186 kg, d“
  • 285 kg, c“
  • 690 kg, g’

Eftirfarandi áletrun er á stærstu klukkunni: EIJSBOUTS ASTENSIS ME FECIT ANNO MC… (líklega MCMXCIV en það er ekki staðfest)

Almáttugi Guð. Hafdjúpin eru í hendi þinni, veður og öldur á valdi þínu. Líf okkar og allir hagir eru í þinni umsjá og það vitum af orði þínu að þú lætur þér annt um okkur og skilar heilum í höfn.
Gjöf til Stykkishólmskirkju 18. júlí 1994

Einnig er áletrun á minni klukkunum.

Í sáluhliðinu í Stykkishólmskirkjugarði er gömul skipsklukka, nokkuð skrautleg. Hún er með áletrunina JON OLLUFSEN ANNO 1745. Klukkunni er hringt þegar jarðsett er í garðinum, sérstaklega þeim hluta sem nær er sáluhliðinu.

Notkun

Fyrir messu er klukkunum hringt 30 mín fyrir messu, 15 mín fyrir messu og við upphaf messu. Einnig er þeim hringt við lok messu. (Þegar kirkjuklukkur.is heimsóttu kirkjuna voru ekki allar klukkurnar virkar og því allar hringingarnar eins).

Fyrir útför eru slegin 3 x 3 slög á næst efstu klukkuna en eftir útför er líkhringing í 5 mínútur.

Upptökur

Myndband

Myndir

Heimildir

Morgunblaðið, 22. desember 1994 (af tímarit.is)

Upptaka og ljósmyndir: Guðmundur Karl Einarsson
13. október 2019