Háteigskirkja var vígð á aðventunni árið 1965. Eins og algengt er var kirkjan þó án kirkjuklukkna fyrstu árin eða til 1979. Árið 1977 var tekin ákvörðun um kaupa skyldi klukkur í Háteigskirkju enda hafði Kvenfélag Háteigskirkju þá heitið fjárstuðningi til kaupanna. Félagið safnaði og lagði fram 3 milljónir króna en ekki er vitað hver heildarkostnaður við kaup og uppsetningu klukknanna varð. Í Morgunblaðinu þann 15. september 1979 er þó sagt frá því að söfnuðurinn sé í fjárhagslega erfiðri stöðu eftir kaupin þar sem safnaðargjöld voru notuð til kaupanna sem og lánsfé. Klukkurnar voru vígðar í messu kl. 11 sunnudaginn 16. september 1979.

Kirkjuklukkur Háteigskirkju eru fjórar og er þeim stýrt með rafbúnaði: stærsta klukkan er í nyrðri turni kirkjunnar og þrjár minni í syðri turninum. Það voru klukkugerðarmenn Koninklijke Eijsbout í Asten í Hollandi sem steyptu klukkurnar og önnuðust uppsetningu ásamt starfsmönnum frá byggingarfélaginu Ármannsfelli en Einar Þorbjörnsson, verkfræðingur, hafði umsjón með verkinu. Koninklijke Eijsbout hefur smíðað fyrir fleiri íslenskar kirkjur og má þar nefna Hallgrímskirkju og Landakotskirkju. Á klukkurnar er letrað EIJSBOUTS ME FECIT sem þýðir á latínu: Eijsbouts bjó mig til. Einnig stendur á þeim Háteigskirkja 1979.

Heimild: Morgunblaðið, 201. tölublað (15.09.1979), Blaðsíða 8

Notkun klukknanna

30 mínútum fyrir messu er minnstu klukkunni hringt í eina og hálfa mínútu.
15 mínútum fyrir messu eru tveimur minnstu klukkunum hringt í tvær mínútur
Við upphaf messu er þremur minnstu klukkunum hringt í fjórar mínútu. Á stórhátíðum er öllum fjórum klukkum kirkjunnar samhringt við upphaf messu.
Við lok messu er ýmist samhringt öllum fjórum klukkunum eða þá þremur minnstu klukkunum.

Við útfarir er hringd líkhringing en þá slær stærsta klukkan eitt slag á 6 sekúndna fresti í 5 mínútur fyrir og eftir athöfn.

Við bænastundir og kistulagningar er stærstu klukkunni hringt þrisvar sinnum þrjú slög (bænaslögin). Bænaslögin eru einnig slegin við upphaf skírna.

Við hjónavígslur er öllum klukkunum samhringt þegar brúður er komin í hús áður en hún gengur inn. Þegar hringingu er lokið hefst innganga brúðarinnar. Þá er öllum klukkunum samhringt við lok hjónavígslu.

Upptökur

30 mínútum fyrir messu

 

Lok messu*

Upptaka: Guðmundur Karl Einarsson, 9. mars 2014.

Kirkjuvörður og hringjari: Gylfi Bragi Guðlaugsson

*Við upptökuna 9. mars 2014 var stærstu klukkunni og tveim minnstu hringt við upphaf og lok messu.