Dómkirkjan í Reykjavík var vígð þann 30. október 17961. Hin nýja kirkja þoldi hins vegar illa íslenskt veðurfar og hálfri öld síðar var hún endurbyggð og endurvígð þann 28. október 18482.

Í turni kirkjunnar eru tvær kirkjuklukkur og að auki hanga tvær klukkur utan á turninum er slá tímaslög. Kirkjuklukkurnar tvær eru úr kopar og staðsettar hvor fyrir ofan aðra. Efri klukkan er síðan 1777 en er talin litlu yngri. Líklega hafa þær verið í gömlu Víkurkirkju áður en þær fóru í Dómkirkjuna þegar hún var reist 1796.3.

Í ritinu Kirkjur Íslands kemur fram að klukkurnar hafi líklega báðar verið í gömlu Víkurkirkju. Eftirgrennslan mín sýnir þó að mögulega hefur einungs eldri klukkan verið í Víkurkirkju. Ég byggi það á því að yngri klukkan er merkt með H. GAMST og er þar líklega vísað til Henrik Gamst (1788-1861) en faðir hans var Hans Christensen Gamst (1737-1803). Í Vatnsfjarðarkirkju er klukka merkt með HC GAMST KIØBENH 1798 og í Viðeyjarkirkju er klukka með áletruninni HANS · C · GAMST – KIØBENHAVN · ANNO · 1786. Af þessu dreg ég þá ályktun að faðirinn hafi merkt sínar klukkur með HC GAMST (eða fullu nafni) en sonurinn með H. GAMST. Þar sem hann var einungis 8 ára þegar Dómkirkjan var vígð verður að teljast líklegra að hann hafi steypt klukkuna á fullorðinsárum og hún því komið beint í Dómkirkjuna.
(Guðmundur Karl Einarsson, 8. ágúst 2020). 

Efri klukkan er 45,8 cm í þvermál og nokkuð skrautleg. Á henni stendur: ME FECIT M:C: TROSCHELL. HOF. KLOCKENSTØBER. KIØBENH: A O 1777. Einnig er letrað á hana REICKEWIGS | KIRKES | KLOCKE. Þá er vangamynd af Kristjáni VII Danakonungi og umhverfis hann stendur CHRISTIANSVS VII · D · G · REX DAN · NORV · VAND · GOTH.

Neðri klukkan er minna skreytt en á hana stendur letrað: STØBT AF.I.C. & H.GAMST KIØBENHAVN. Hún er 47,7 cm í þvermál. Fyrir hringingaropum á öllum fjórum hliðum turnsins eru hlerar sem opnast sjálfkrafa um leið og hringing hefst.

Á turni Dómkirkjunna eru jafnframt fjórar úrskífur sem sýna klukkuna. Klukkuverkið sem stýrir hvoru tveggja, úrskífunum og stundaslögunum er afar gamalt og þarf að trekkja það upp reglulega svo það gangi rétt. Það var við endurbæturnar um miðja 19. öld sem turnklukka var sett í kirkjuna. Það var danski úrsmiðurinn A. Funch sem smíðaði stundaklukkuna. Það var svo úrsmiður að nafni Bremer sem kom með klukkunni til landsins þann 27. maí 1848 til þess að setja klukkuna upp. Verkinu lauk 18. júlí sama ár og var klukkan þá látin ganga í 8 daga áður en bæjarstjórn Reykjavíkur tók við henni4.

Þá er ein klukka í klukknaporti Hólavallakirkjugarðs við Suðurgötu. Árið 1838 var reist líkhús í kirkjugarðinum og þar fóru m.a. fram kistulagningar. Þá var líkhúsið notað til helgihalds á meðan á endurbótum Dómkirkjunnar stóð um miðja 19. öld. Timbur til smíði líkhússins kom til landsins með skipi í marslok 1838 og fylgdi klukkan þá með. Árið 1951 var líkhúsið flutt í Fossvogskirkjugarð en á grunni þess í Hólavallakirkjugarði var reist klukknaport og klukkan úr líkhúsinu sett þangað.

Árið 1994 var klukkan hreinsuð og þá kom í ljós áletrun sem höggvin er í hana: Nicholas and Anne. Er talið að klukkan hafi upphaflega þjónað sem kirkjuklukka (eða a.m.k. átt að gera það) en svo farið í skip. Talið er líklegt hún hafi komið úr skipi frá Noregi sem var smíðað árið 1798 og hafði heimahöfn í Sandefjord en síðar Fredrikstad. Engar sögur fara af skipinu eftir 1825 og rennir það stoðum undir þá kenningu að klukkan sé úr skipinu5.

Notkun

  • 30 mín fyrir messu: Efri klukkan
  • 15 mín fyrir messu: Efri klukkan
  • Upphaf messu: Neðri klukkan
  • Ekki er hringt við lok messu
  • Fyrir útför:
    5 mín fyrir athöfn er líkhringing í þrjár mínútur á neðri klukkuna.
    2 mín fyrir athöfn eru slegin 3 x 3 slög á neðri klukkuna.
  • Eftir útför: Þegar blessun er lokið er líkhringing á neðri klukkuna og hringir þar til kistan er komin í líkbílinn.

Upptökur

Myndband

Myndir

Heimildir

Kirkjuvörður: Ólöf Sesselja Óskarsdóttir
Upptaka og ljósmyndir: Guðmundur Karl Einarsson
8. september 2019

  1. Kirkjur Íslands, 18. bindi (2012), bls. 40
  2. Þórir Stephensen: Dómkirkjan í Reykjavík (1996) I, 167.
  3. Kirkjur Íslands, 18. bindi (2012), bls. 108
  4. Þórir Stephensen: Dómkirkjan í Reykjavík (1996) I, 159-160.
  5. Þórir Stephensen: Dómkirkjan í Reykjavík (1996) I, 115-117.