Hátt yfir miðborg Reykjavíkur trjónir Hallgrímskirkja. Hún sést langt að og er eitt helsta kennileiti borgarinnar. Því var leitt að fá af því fréttir á síðasta ári að kirkjuklukkur Hallgrímskirkju væru hljóðar vegna bilunar. Um áramótin klifraði sóknarpresturinn í Hallgrímskirkju, sr. Sigurður Árni Þórðarson, upp í turninn og barði stærstu klukkuna, Hallgríms, með sleggju.

Þess gerist ekki þörf um næstu áramót þar sem klukkur kirkjunnar hafa verið teknar í gegn og lagfærðar. Þær hringja nú til helgihalds í kirkjunni eins og áður auk þess sem stundaslögin heyrast á 15 mín fresti frá kl. 9 á morgnanna til kl. 21 á kvöldin.

Í Hallgrímskirkju eru þrjár kirkjuklukkur og að auki 29 klukkur í klukkuspilinu. Tvær minni kirkjuklukkurnar sveiflast með fljúgandi kólfi en sú stærsta, Hallgrímur, sveiflast ekki. Er það vegna burðarvirkis og á eftir að fara í viðgerðir á því til þess að Hallgrímur sveiflist líka.

Ég hef heimsótt Hallgrímskirkju nokkrum sinnum og tekið upp. Þó hef ég ekki lokið við upptökur í kirkjunni enda mikið verk með stóra kirkju, mikla bílaumferð fyrir utan og marga ferðamenn. Þær upptökur sem ég hef þegar gert er hægt að nálgast hér á vefnum en meira á eftir að bætast við.