Í Hallgrímskirkju eru þrjár stórar kirkjuklukkur og auk þeirra klukkuspil sem samanstendur af 29 klukkum. Það var Samband íslenskra samvinnufélaga sem gaf Hallgrímskirkju klukkurnar við athöfn í kirkjunni föstudaginn 19. mars 1971. Fram kemur í fréttum af gjöfinni að ákvörðun um að gefa klukkurnar hafi verið tekin 29 árum áður.

  • Stærsta klukkan heitir Hallgrímur (eftir sr. Hallgrími Péturssyni), vegur 2.815 kg og hefur tóninn h.
  • Miðklukkan heitir Guðríður (eftir eiginkonu Hallgríms), vegur 1.650 kg og hefur tóninn d.
  • Minnsta klukkan heitir Steinunn (eftir dóttur þeirra hjóna sem lést ung), vegur 1.155 kg og hefur tóninn e.

Klukkurnar voru framleiddar af hollenska fyrirtækinu Eijsbouts en fyrirtækir framleiddi m.a. klukkurnar í Háteigskirkju og Landakotskirkju. Það voru sérfræðingar fyrirtækisins ásamt starfsmönnum Héðins sem settu klukkurnar upp en þær voru hífðar upp í turninn í gegnum stokk.

Notkun

  • 30 mín fyrir messu er hringt með minnstu klukkunni í 5 mín
  • 15 mín fyrir messu er hringt með tveimur minnstu klukkunum í 5 mín
  • Við upphaf messu er öllum þremur klukkunum samhringt í 3 mín
  • Við lok messu er tveimur minnstu klukkunum hringt í 5 mín

Hringingar við helgihald

Stundaslög og klukkuspil

Klukkur Hallgrímskirkju slá stundaslög á 15 mínútna fresti frá kl. 9 á morgnanna til kl. 12 á kvöldin. Í upptökunni hér fyrir neðan má heyra klukkuspilið spila Víst ertu Jesús kóngur klár sem er úr 27. Passíusálmi Hallgríms Péturssonar. Hluti textans er einnig í Sálmabók þjóðkirkjunnar, sálmur 41. Lagið er íslenskt þjóðlag. Þar fyrir neðan má heyra klukkuspilið leika Vor Guð er borg á bjargi traust, sálm nr. 284 í Sálmabók þjóðkirkjunnar eftir Helga Hálfdánarson.

Klukkuspilið er þannig sett upp að vestan megin eru 14 klukkur í tveimur röðum en austan megin eru 15 klukkur í tveimur röðum. Allar klukkurnar eru merktar með nafni gefanda eða þess sem þær voru gefnar til minningar um.

Nr Tónn Stærð Áletrun
1 c’ 775 Til minningar um Eggert Claessen. 1877-1950. Frá Vinnuveitendasambandi Íslands
2 d’ 690 Sigurjón Pétursson. Kristján Jóhann Kristjánsson. Fyrstu formenn Félags íslenskra iðnrekenda 1970
3 dís’ 645 Gefandi: Landssamband Iðnaðarmanna 1970
4 e’ 610 Gefandi: Kvenfélag Hallgrímskirkju
5 f’ 600 Gefandi: Kvenfélag Hallgrímskirkju
6 fís’ 565 Til minningar um Héðinn Valdimarsson
7 g’ 545 Heill og hamingja fylgi Hallgrímskirkju. Kaupmannasamtök Íslands
8 gís’ 515 Gefandi: Smjörlíki hf.
9 a’ 485 Til minningar um frú Vigdísi Ketilsdóttur frá Kotvogi í Höfnum. 1868-1966
10 aís’ 470 Til minningar um frú Vigdísi Ketilsdóttur frá Kotvogi í Höfnum. 1868-1966
11 h’ 450 Guðmundur Bjarnason 1864-1910. Hildur Bjarnadóttir 1871-1961. Önundarholti Árnessýslu. Frá syni þeirra Guðmundi í Víði
12 c“ 430 Til minningar um frú Guðrúnu Geisler Jónasson. F 24.12.1910 D 25.03.1960 konu Ársæls Jónassonar kafara í Reykjavík
13 cís“ 415 Gefandi: Múrarameistarafélag Reykjavíkur
14 d“ 400 Árni Runólfsson. 1864-1943. Margrét Hróbjartsdóttir. 1869-1951. Áshól, Holtum. Frá Guðlaugu, Sigurbergi og Lidyu
15 dís“ 390 Frá Grímseyingum. Gefandi V.F.
16 e“ 375 Guðmundur Þorleifsson múrari, 1867-1945. Guðrún Filipusdóttir, 1864-1927.
17 f“ 360 Til minningar um Þuríði Ólafsdóttur, 1849-1933
18 fís“ 350 Sigurður Bjargmundsson trésmiður. F. 1892. Valgerður I. Guðmundsdóttir, f 1888
19 g“ 335 Til minningar um hjónin Björgu Stefánsdóttur og Árna S. Bjarnason á Skólavörðustíg 29A 1914-1969
20 gís“ 325 G. G. og P.V.G. Kolka. Róm. 1:16
21 a“ 310 Frú Anna Einarsdóttir frá Odda. 1899-1967
22 aís“ 300 Til minningar um Steingrím Guðjónsson. Fæddan 2.9.1901. D. 17.8.1983 og systur hans
23 h“ 290 Til minningar um frú Jóhönnu Bjarnadóttur, Þórsgötu 14
24 c“’ 280 Þuríður Guðrún Eyleifsdóttir, Árbæ 1893-1959. Guðlaugur Guðlaugsson, 1882-1957. Börn og tengdabörn
25 cís“’ 275 Guðrún og Karl Ryden
26 d“’ 265 Þóroddur E. Jónsson stórkaupmaður
27 dís“’ 260 Valdís Jónsdóttir 1875-1970. Jón Jónsson 1870-1965. Börn og tengdabörn
28 e“’ 250 Magnús Kristjánsson garðyrkjumaður. Sesselja Sveinsdóttir. Eskihlíð D
29 f“’ 245 Minning: Hjónin Ólöf Magnúsdóttir og Magnús Gíslason og dóttir þeirra Þórey Magnúsdóttir. Frá Ingu og Hermanni, Þórsgötu. 1970

Myndir

Heimildir

Stundaslög voru tekin upp fimmtudaginn 28. ágúst 2014. Klukkuspil og messuhringingar voru teknar upp 29. október 2017.

Ein upptaka er frá RÚV og er hún merkt sérstaklega og birt með leyfi.

Upptaka (annað en RÚV): Guðmundur Karl Einarsson

Upptaka á klukkuspili 8. desember 2008: Arnþór Helgason, Hörður Áskelsson leikur á klukkuspilið.