Fyrsta skóflustungan að Grafarvogskirkju var tekin 18. maí 1991. Kirkjan var svo vígð sunnudaginn 18. júní 2000 og kirkjuklukkurnar þrjár voru vígðar við sama tækifæri. Það voru krakkar í hverfinu sem stóðu fyrir mikilli söfnun fyrir klukkkunum enda þótti ekki hægt annað en að fá klukkur í kirkjuna. Klukkurnar koma frá belgíska fyrirtækinu Clock-o-Matic sem og allur stjórnbúnaður. Þær voru steyptar hjá Royal Eijsbouts í Asten í Hollandi og eru úr klukkukopar. Ásgeir Long annaðist innflutning og uppsetningu klukknanna.

Klukkurnar voru fluttar til landsins með skipi Eimskipafélags Íslands og voru settar upp þriðjudaginn 13. júní 2000. 1. Vígslan fór svo fram við vígslu kirkjunnar sunnudaginn 18. júní 2000. Eftirfarandi frásögn má finna í bókinni Grafarvogssókn 25 ára:

Það gekk á ýmsu á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2000, daginn áður en Grafarvogskirkja var vígð. Það var spenna í lofti enda margir að leggja lokahönd á verkið  – að gera kirkjuna klára fyrir vígsluna. Það var ákveðinn skjálfti í mönnum en þá varð einnig mikill Suðurlandsskjálfti – af stærðinni 6,5 á Richter; stærsti jarðskjálfti í 88 ár. Upptökin voru í Kaldárholti í Holtum. Mikið tjón varð í jarðskjálftanum, einkum á Hellu, í Holtum og Landsveit.

Þegar skjálftinn gekk yfir (kl. 15.40) var Hörður Bragason organisti að æfa sig. Hann hélt að enn einn lyftarinn væri kominn inn til að koma altarinu fyrir, svo miklir voru skruðningarnir.

Þá fóru kirkjuklukkurnar að hringja sjálfkrafa.

„Ég var nýlega farinn úr kirkjunni – það átti að skíra barn í húsi við Logafold. Ég hélt að það væri sprungið á bílnum; gatan gekk í bylgjum og bíllinn hreyfðist eins og bátur í öldugangi. Ég stoppaði og fór út að athuga hvort það væri sprungið. Þá heyrði ég að kirkjuklukkunum var hringt.

Jarðskjálftinn kallaði fram fyrstu kirkjuklukkuhringinguna – daginn fyrir vígsluhringinguna.

Kirkjan nötraði og menn óttuðust fyrst um skemmdir. Við sáum þá hvað kirkjan var vel byggð – það komu engar skemmdir fram, ekki einu sinni sprunga.“

Klukkurnar eru þrjár. Þeim öllum er skrauthringur efst og áletrunin EIJSBOUTS ASTENSIS ME FECIT ANNO MM. Einnig stendur á klukkunum: Grafarvogskirkja vígð 18. júní, árið 2000. Á tvær þeirra eru letruð erindi úr sálmi sem Sigurbjörn Einarsson biskup orti sérstaklega sem gjöf til Grafarvogsbúa við vígslu kirkjunnar en á þeirri þriðju er sálmur Helga Hálfdanarsonar, „Nú gjaldi Guði þökk“. Við vígsluna var sálmur Sigurbjarnar frumfluttur við lag Þorkels Sigurbjörnssonar.

Minnsta klukkan

Þvermál: 68 cm
Þyngd: 205 kg
Tónn: c’

Svo vermi sá geislinn Grafarvog,
að grói hvert blessað sáð.
Og mannlífið Kristi verð vígt,
hans vilja, ást og náð.

Sigurbjörn Einarsson

Miðju klukkan

Þvermál: 81 cm
Þyngd: 340 kg
Tónn: b’

Í dag leikur geisli um Grafarvog
um götur og nes og sund.
Hann sendur er hæstum himni frá
á heilagri náðarstund.

Sigurbjörn Einarsson

Stærsta klukkan

Þvermál: 101 cm
Þyngd: 690 kg
Tónn: g’

Nú gjaldi Guði þökk
hans gjörvöll barna hjörðin,
um dýrð og hátign hans
er himinn vott og jörðin.
Frá æsku vorri var
oss vernd og skjól hans náð,
og allt vort bætti böl
hans blessað líknarráð.

Helgi Hálfdánarson

Notkun

  • 30 mín fyrir messu eru minnstu klukkunni hringt í 4-5 mínútur.
  • 15 mín fyrir messu er tveimur minnstu klukkunum hringt í 4-5 mínútur.
  • Við upphaf messu er öllum klukkunum samhringt í 5 mínútur.
  • Við upphaf útfarar er líkhringing hringd á stærstu klukkuna í 4 mínútur með 9 sek millibili.

Upptökur

Myndband

Myndir

Heimildir

Kirkjuvörður: María K. Hólm
Upptaka: 
Guðmundur Karl Einarsson
15. október 2017

  1. Grafarvogssókn 25 ára 1989-2014. Ritstjóri: Sigmundur Ó. Steinarsson. Bls. 74-77.