Í Guðríðarkirkju eru þrjár kirkjuklukkur sem staðsettar eru í klukknaporti utan við kirkjuna. Klukkurnar voru framleiddar í Hollandi af fyrirtækinu Eijbouts sem hefur m.a. framleitt klukkur í Hallgrímskirkju, Háteigskirkju og Landakotskirkju. Klukkurnar bera nöfn að gömlum sið. Sr. Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur í Guðríðarkirkju, valdi nöfnin.

Klukkurnar standa fyrir hæstar hæðir, jörðina og fagnandi hjörtu mannanna. Stærsta klukkan er himnaklukkan, klukka ómælisgeimsins og fagrahvelsins þar sem englarnir syngja Guði dýrð. Miðklukkan með öllum lífverum jarðarinnar enduróma þessa lofgjörð til skapanda lífsins. Og minnsta klukkan táknar manneskjurnar sem bregðast við gjöf lífsins og andans með þakkargjörð. Þannig undirstrika klukkurnar þrjár lífmiðlæga heild þar sem manneskjan tekur þátt í dýrðarsöng fagrahvels og jarðar.

Á stærstu klukkuna er letrað “Dýrð í hæstum hæðum, á miðklukkuna “Jörð það endurómar” og minnsta klukkan ber yfirskriftina “Fagnandi hjörtu færa þakkargjörð. Eru þetta allt vers úr sálminum Dýrð í hæsum hæðum.

  • Stærsta klukkan vegur 482 kg og hefur tóninn A1*
  • Mið klukkan vegur 289 kg og hefur tóninn C2*
  • Minnsta klukkan vegur 203 kg og hefur tóninn D2*

Klukkurnar voru settar upp í október 2009 og vígðar sunnudaginn 6. desember 2009 kl. 17:00 af Hr. Karli Sigurbjörnssyni, biskupi Íslands.

Notkun klukknanna

30 mínútum fyrir messu er minnstu klukkunni hringt í u.þ.b. 3 mínútur. 15 mínútum fyrir messu er tveimur minnstu klukkunum hringt í u.þ.b. 3 mínútur. 4 mínútum fyrir messu eru öllum þremur klukkunum hringt í u.þ.b. 4 mínútur.

Stundum er tveimur minni klukkunum hringt við lok messu.

Fyrir útfarir eru slegin þrisvar sinnum þrjú slög á stærstu klukkuna. Að útför lokinni er líkhringing slegin í stærstu klukkuna á 10 sek fresti í 15 mínútur.

Klukkunum er einnig hringt fyrir og eftir brúðkaup. Þá er öllum þremur klukkum samhringt um áramót.

Heimildir

Lovísa Guðmundsdóttir, kirkjuvörður í Guðríðarkirkju

Guðríðarkirkja.is

Guðríðarkirkja.is

Guðríðarkirkja.is

Upptaka: Guðmundur Karl Einarsson 7. september 2014.
Kirkjuvörður/hringjari: Lovísa Guðmundsdóttir

Þegar upptakan var gerð þann 7. september 2014 virkaði stærsta klukkan ekki sem skyldi og því var einungis tveimur minnstu klukkunum hringt við upphaf messu.

*Heimild: Valdimar Long 19. nóvember 2014