Undirritaður dvaldi hjá tengdaforeldrum í Búðardal um helgina. Þá var auðvitað upplagt að heimsækja Hjarðarholtskirkju sem stendur rétt utan við Búðardal og þjónar þorpinu. Þar hitti ég fyrir sr. Önnu Eiríksdóttur og Víví Kristóberts, hringjara til 40 ára. Víví hringdi svo klukkunum af mikilli natni og ég tók upp.

Hins vegar var ekki mikið vitað um uppruna klukknanna annað en að þær eru eldri en kirkjan sjálf sem var byggð 1904. Ég prílaði upp í turninn og hóf að lesa á minni klukkuna en hún virðist einnig vera  eldri en sú stærri. Á klukkuna er letrað BIADNE BIADNESSEN A ATNERBAILE 1720. Upphófust nú miklar getgátur um uppruna klukkunnar og hvað þetta þýddi.

Fljótlega kom í ljós að hér er líklega átt við Bjarna Bjarnason frá Arnarbæli. Bjarni fæddist um 1644 og lést 1723. Hann nam við Skálholtsskóla í tvö ár og var síðan í útlöndum um skeið. Árið 1688 gerðist hann bóndi í Arnarbæli en fyrir þann tíma bjó hann á Hesti í Önundarfirði. Bjarni bjó á Arnarbæli til æviloka. Hann var lögsagnari í Dalasýslu 1696-1697 og lögréttumaður. Honum var lýst sem auðugum, skýrum og margfróðum auk þess sem hann talaði nokkur tungumál. Bjarni kvæntist Guðnýju Hákonardóttur frá Miðgörðum í Staðarsveit. Þau eignuðust átta börn en auk þeirra átti Bjarni einn launson.

(Heimild: Dalamenn II. bindi, æviskrár 1703-1961. Höfundur Jón Guðnason, gfin út í Reykjavík árið 1961)

Það var enn skemmtilegra þegar það kom í ljós að skv. Íslendingabók er Bjarni þessi 7x langafi eiginkonu minnar.

Það var gaman að koma í Hjarðarholtskirkju og hringingar kirkjunnar eru nú komnar á vefinn 🙂