Akureyrarkirkja var vígð sunnudaginn 17. nóvember 1940. Formleg vígsluathöfn hófst reyndar daginn áður kl. 18:00 með því að kirkjuklukkunni var hringt. Þar sem þetta var á tímum síðari heimsstyrjaldar þótti ástæða til að birta sérstaklega tilkynningu þar um:

Vígsla kirkjunnar fer fram næstk sunnudag, 17. þ. m., og hefst kl. 1 e.h. – Verður kirkjan opnuð kl. 12.30. – Biskupinn yfir Íslandi framkvæmir vígsluna. – Athygli bæjarbúa skal vakin á því, að á laugardagskvöldið kl. 6 e.h. verður kirkjuklukkunni hringt nokkra stund. Er það upphaf vígsluathafnarinnar, en ekki loftvarnarmerki. (Sverrir Pálsson, Saga Akureyrarkirkju.1990 bls. 244)

Á kirkjunni eru tveir turnar en klukkur eru aðeins í nyrðri turninum. Kirkjan á alls þrjár klukkur en aðeins ein er notuð að staðaldri. Það er klukka sem smíðuð var í Englandi árið 1940 og sett upp við byggingu kirkjunnar. Klukkan er 3 fet í þvermál, vegur 800 kg og hefur tóninn fís. Menn óttuðust að titringurinn og hljóðbylgjurnar myndu valda steypuskemmdum á kirkjunni og var því smíðuaður mikill stóll úr timbri í turninum (Sverrir Pálsson, Saga Akureyrarkirkju.1990 bls. 236). Klukkunni var handhringt fram til ársins 1998 þegar Ásgeir Long setti upp rafstýribúnað frá Clock-o-matic í Belgíu.

Í turninum er einnig lítil klukka sem kemur úr gömlu Akureyrarkirkju. Klukkan var keypt árið 1875 eftir að eldri klukka sem þar var (og hafði áður verið í Hrafnagilskirkju) rifnaði. Klukkunni þarf að handhringja og er hún ekki notuð að staðaldri. Klukkan er 45 cm í þvermál.

Á turninum eru tvær lokur sem eru opnaðar þegar klukkunum er hringt. Opnunin er rafstýrð og eru lokurnar hafðar opnar á meðan á athöfn stendur.

Þriðja klukkan er á sérsmíðuðum færanlegum gálga. Sú klukka var einnig í gömlu Akureyrarkirkju en þar áður í Hrafnagilskirkju. Klukkan, sem var steypt árið 1729, er með fangamarki Friðriks konungs IV og er 37,5 cm í þvermál. Klukkan er ekki notuð að staðaldri en þó stundum við sérstök tækifæri. Hún var lánuð á sýningu í Hrafnagili og við það tækifæri var fléttaður kaðall úr hrosshárum eins og talið er að hafi verið notaður til að hringja henni í árdaga.

Í Akureyrarkirkju er líka stór stundaklukka. Við hana er tengt klukkuspil sem slær stundaslögin á heila tímanum og leikur stef á 15 mín fresti. Klukkan er sænsk og var það Kristján Halldórsson, úrsmiður, sem gaf klukkuna í minningu eiginkonu sinnar árið 1948. Klukkurnar leika lag stef sem Björgvin Guðmundsson tónskáld samdi, en stefin tákna mannsævina.

 • 15 mín yfir heila tímann eru slegnar fjórar nótur sem tákna uppvöxtinn.
 • Á hálfa tímanum eru slegnar átta nótur sem tákna ungþroskaskeið.
 • 15 mín fyrir heila tímann eru slegnar tólf nótur sem tákna manndómsárin.
 • Á heila tímanum eru slegnar 16 nótur, allt lagið, sem tákna hnignun eða elli.

Búnaðurinn í stundaklukkunni var sömuleiðis endurnýjaður 1998.

Notkun

Að jafnaði er einungis stóra klukkan notuð.

 • 30 mín fyrir messu er hringt í 2 mín
 • 15 mín fyrir messu er hringt í 2 mín
 • Við upphaf messu er hringt í 2 mín
 • Við lok messu eru slegin 3 x 3 slög
 • Fyrir útför er líkhringing slegin sjö sinnum
 • Eftir útför er líkhringing slegin frá því að kistu er lyft upp og þar til dyrum líkbílsins hefur verið lokað.
 • Ef brúðhjón óska er hringt þegar þau ganga frá kirkju eftir hjónavígslu.

Upptökur

Hér fyrir neðan er bæði hægt að heyra stóru klukkuna hringja og eins stóru klukkuna ásamt þeirri minni sem er einnig í turninum. Síðari upptakan var meira til gamans gerð en hún er ekki notuð að staðaldri.

Myndband

Myndir

Heimildir

Upptaka: Guðmundur Karl Einarsson
Aðstoð við upptöku: Helga Jónsdóttir
Kirkjuvörður: Sveinn Jónasson

Upptaka á klukkuspili var gerð 19. ágúst 2013. Aðrar upptökur voru gerðar 24. júlí 2016.

 • Sverrir Pálsson, Saga Akureyrarkirkju. 1990.
 • Hið íslenska bókmenntafélag, Kirkjur Íslands, 10. bindi. Friðaðar kirkjur í Eyjafjarðarprófastsdæmi II. 2007
 • Sveinn Jónasson, kirkjuvörður Akureyrarkirkju. Viðtal 24. júlí 2016.
 • Morgunblaðið. Kirkjuklukkurnar tengdar rafafli. 27. nóvember 1998. Sótt á timarit.is